Loftslagsleiðangurinn 2021: Núpstaðaskógur - Skaftafell

Gönguleiðin sem farin var í námskeiði Loftslagsleiðtogans er ægifögur, krefjandi og býður upp einstaka mögulega til fræðslu og samtals um umhverfis- og loftslagsmál og áskoranir sem reyna á leiðtogahæfni þátttakenda. Leiðin býður upp á klifur, vað yfir ískalda jökulá og langa dagleið yfir völundarhús Skeiðarárjökuls sem reynir á úthald og þrautseigju þátttakenda, auk samvinnu og samkenndar hópsins. Það sama þurfum við að tileinka okkur til að takast á við loftslagsvána. 

 

 

Dagur 1: Núpstaðaskógur – Klifið – Tvílitahylur

Fyrsti dagur leiðangursins býður upp á fjölbreyttar áskoranir og náttúruupplifun. Gönguleiðin hefst í Núpstaðaskógi í Skaftárhreppi – lítt snortnum birkiskóg við suðurjaðar Vatnajökuls, þar sem Lómagnúpur skartar sínu fegursta og fjölbreyttur gróður skógarins veitir skjól. Eftir göngu gegnum skóginn bíður okkar Klifið, tíu metra hár klettaveggur, sem við klifrum með hjálp klifurbúnaðar. Þegar upp er komið bíður okkar stórkostlegt útsýni yfir Núpsstaðaskóg og eyrarnar sunnan hans. Rétt ofan við Klifið blasir við Tvílitahylur þar sem bergvatnsáin Hvítá og jökuláin Núpsá sameinast svo úr verður magnað sjónarspil. Áður en slegið er upp tjaldbúðum er tekist á við aðra áskorun dagsins – göngu upp bratt gljúfur í lausum skriðum. 

 

Dagur 2: Grænalón

Landslagið á öðrum degi göngunnar breytist eftir því sem líður á daginn. Melagróður tekur við af kjarrinu og greinilegt að við hækkum okkur og nálgumst jökulinn. Hér vaxa smáar en harðgerar plöntur sem virðast una sér vel í hrjóstrugu landslaginu. Það styttir upp og við höldum í átt að tómu lónstæði Grænalóns. Grænalón var stórt jökulstíflað stöðuvatn sem nú er alveg horfið. Ástæðan er sú að Skeiðarárjökull stíflar ekki lengur lónstæðið því hann hefur þynnst og hörfað vegna loftslagsbreytinga. Það er áhrifaríkt að upplifa með beinum hætti þau áhrif sem loftslagsbreytingar hafa á náttúru og umhverfi okkar. Rannsóknir sýna að það að verða vitni að eða upplifa áhrif loftslagsbreytinga á náttúru og umhverfi getur stuðlað að ábyrgari umhverfishegðun. Loftslagsleiðtoginn fylgir þessari hugmyndafræði og eru markmið verkefnisins að bjóða upp á leiðtogaþjálfun og vandaða fræðslu í anda útináms og þar með að valdefla einstaklinga og kveikja neista sem leiðir til öflugra loftslagsaðgerða. Eftir góðan dag á fjöllum er tjaldað á syllu í hlíðum Grænafjalls – það verður ekki mikið fallegra.

 

 

Dagur 3: Þverun Skeiðarárjökuls og Svartiskógur

Nú er komið að stóra jökladeginum. Við göngum að jökulröndinni og hefjum för okkar yfir jökulinn. Þverunin getur tekið langan tíma enda er jökullinn margbreytilegur og aldrei eins og því þarf að finna bestu leiðina hverju sinni í gegnum skriðjökulinn. Krækja þarf fyrir sprungur og víða má sjá tilkomumikla svelgi á leiðinni. Við okkur blasa háar jökulöldur þaktar svörtum jökulsandi – við erum komin að svonefndum Svartaskógi. Við föllum í stafi yfir hrikalegri fegurðinni. En þetta er langur dagur og þegar við höfum loks þverað jökulinn er þreytan farin að segja til sín. Nú reynir á viljastyrkinn, þrautseigjuna og jákvæðnina. Við getum meira en við höldum og saman komumst við á leiðarenda.

 

 

Dagur 4: Færneseggjum að Skaftafelli

Fátt getur slegið við morgunkaffi á einu stórfenglegasta tjaldsvæði landsins, undir Færneseggjum. Jökullinn skartar sínu fegursta og við horfum á afrek gærdagsins. Það er komið að síðasta göngudeginum, um Skaftafellsfjöll og niður í Skaftafell. Áfram reynir hópurinn nýja hluti, það þarf að ganga upp brattar brekkur, fara í belti og brodda, síga smávegis og takast á við lofthræðslu. Við lækkum okkur og kveðjum hrjóstrugt fjallalandslagið og höldum inn í skógi vaxinn Morsárdalinn og niður í Skaftafell sem leiðangrinum lýkur.